Er kominn tími á að sniðganga Gylfa Arnbjörnsson?

Gylfi Arnbjörnsson, einn helsti leiðtogi alþýðu þessa lands,  fer mikinn gegn íslenskum landbúnaði í dag. Hann tekur upp málflutning Samfylkingarinnar og ræðst á íslenska matvælaframleiðslu. Það er mjög sérstakt að forseti ASÍ skuli hvetja Íslendinga til að sniðganga innlenda framleiðslu á sama tíma og gjaldeyrir er af skornum skammti og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Maður hefði haldið að það ætti að vera keppikefli Alþýðusambandsins að auka innlenda framleiðslu á öllum sviðum.  

Vaskleg framganga Gylfa fyrir stefnumálum Samfylkingarinnar nær nú nýjum hæðum og það er kannski ekki að ástæðulausu sem gárungarnir segja að hann starfi sem vinstri hönd Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar. Það voru fáir sem börðust harðar gegn almennri skuldaleiðréttingu heimilanna í landinu. Barátta hans fyrir samþykkt Icesave samningana er flestum í fersku minni en þar tók hann stöðu með þeim sem vildu að alþýða landsins ábyrgðist skuldir fallinna einkabanka.  Öllum er einnig ljóst að hann notar hvert tækifæri til baráttu sinnar fyrir ESB aðild.   

Nú fjallar hann um samráð bænda gegn fólkinu í landinu. Það væri kannski rétt hjá forseta ASÍ að skoða ástæður þess að íslenskar landbúnaðarafurðir hafa haldið verðbólgunni niðri frá hruni á meðan innflutt matvæli hafa hækkað hana. Man heldur nokkur eftir því að Gylfi Arnbjörnsson hafi gert athugasemdir við að stórkaupmenn og milliliðir taki aukinn hlut í útsöluverði? Hvað tefur forseta alþýðunnar að taka þann slag?  

Ég trúi því ekki að allir félagsmenn sambandsins séu sammála þeirri vegferð sem forsetinn er á


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var magnað að sjá uppsláttinn á forsíðu Fréttablaðsins, miðað við sjálfa fréttina í blaðinu og samanburði við efnistök Moggans (sem er ekkert skárri í flestum öðrum efnistökum).  Hef sjaldan eða aldrei séð jafn grímulausan áróður eins og á forsíðu Fréttablaðsins í dag þar sem Gylfi fór hamförum.

Stefán Már Ágústsson (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 18:50

2 identicon

Sæll.

Þetta er afar þörf upprifjun hjá þér og maðurinn er í raun réttri búinn að vera - axarsköftin hjá honum koma í röðum. Hvernig getur verkalýðsforkólfur lagt til að fólk fari nánast í stríð við aðra stétt manna sem vill það eitt að fá meira fyrir sinn snúð.

Svo er rétt að halda til haga ábyrgð Gylfa á nýgerðum kjarasamningum. Þeir eru svo arfavitlausir að þeir munu leiða yfir okkur aukna verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Hvað ætlar Gylfi þá að gera? Varla gengst hann við eigin ábyrgð á þeirri stöðu? Ætli hann kenni ekki öllum öðrum en sjálfum sér um þá væntanlegu fjölgun atvinnulausra og rýrnandi kaupmætti?

Vonandi losar ASÍ sig við þennan skussa sem fyrst.

Jón (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 19:21

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það skal ekki gleyma þætti Gylfa Arnbjörnssonar, vorið 2008, þegar hann var skipaður í nefnd til að kanna hvort ekki væri rétt að afnema verðtryggingu lána.

Þessi nefnd, sem Gylfi sat í , tók sér innan við viku til þeirrar rannsóknar. Niðurstaðan var að ekki væri hægt að afnema verðtygginguna. Stutt og laggott og vissulega ekki til heilla fyrir launþega landsins. Það þarf snillinga til að skoða þetta stóra mál á svo stuttum tíma, þó er líklegra að með skipunarbréfinu hafi fylgt ósk um niðurstöðu. Það hjálpar nefndarmönnum óneytanlega þegar þeir vita í upphafi hver niðurstaðan á að verða!

Gengdarlaus áróður Gylfa fyrir inngöngu í ESB er með ólíkindum, á meðan kolegar hans innan ESB mótmæla harðlega stefnu bandalagsins og benda á að kjör félagsmanna sinna hafi versnað stórlega vegna stefni og útþennslu ESB, einkum í austurátt.

Málflutningur Gylfa í flestum málum er hápólitískur og nýtir hann sér stöðu sína í ASÍ sér til framdráttar gengdarlaust. ASÍ er ekki pólitísk samtök, enda eðli þeirra og uppbygging gjörólík stjórnmálaflokkum. Fyrir það fyrsta hefur launþeginn ekki val um hvort hann sé meðlimur í ASÍ. Í öðrulagi og ekki síður mikilvægt, þá hefur launþeginn heldur ekkert val um hvort hluti launa hans sé tekinn til að halda uppi þeirri hálaunastefnu sem stjórn ASÍ hefur tekið sér, eða til reksturs þessara samtaka. Launþeginn hefur hins vegar fullt val til að velja sér stjórnmálaflokk eða standa utan þeirra og vissulega hefur launþeginn val um hvort hann láti hluta launa sinna renna í sjóð einhvers þeirra eða hvort hann notar þá aura til að greiða niður stökkbreitt lán sín! Lán sem stökkbreyttust í umboði Gylfa Arnbjörnssonar!!

Gunnar Heiðarsson, 16.7.2011 kl. 20:27

4 identicon

Ásmundur trúir því ekki að allir félagsmenn ASÍ séu sammála vegferð forseta síns.

En heldur hann að kjósendur hans sjálfs séu ánægðir með vegferð hans?

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 20:29

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sá sem skipaði Gylfa í nefdina vorið 2008 heitir Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra!

Gunnar Heiðarsson, 16.7.2011 kl. 20:31

6 identicon

Jú og framsóknarflokkinn líka, og hina 3

DoctorE (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 21:19

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda á að ef að Íslenskar matvörur eru svona ódýrar eins og menn segja þá er innflutningahöft og tollavernd út í hött. Og sjálfsagt að fella þau þá niður um leið og bændur fá bara að hækka sínar vörur um 25%. Og fyrst að þessi hækkun á aðallega að lenda á kjöti sem flutt er út þá hlýtur íslenskur landbúnaður að vera samkeppnisfær og rúmlega það ef að hann getur keppt við landbúnaðarvörur erlendis um leið og verðið er hækkað um 25%.

Annars er allt í lagi að benda ykkur mannvitbrekkum hér á að kaupmáttur á Íslandi hefur lækkað um 15 til 20% í hruninu. Samt voru greiðslur til landbúnaðarins ekki lækkaðar sem nemur raun lækkun launa hér á landi. Eins þá hélt ég að bændur ættu flestar af þessum afurðarstöðvum með einum eða örðum hætti. 

Finnst alveg sjálfsagt að neyendurm sé bent á að leita í þær vörur sem ekki hækka svona gjösamlega úr takti við  aðar hækkanir. Þannig hafa launahækkanir síðustu misseri verið 4 til 6%. Af hverju var ekki byrjað þar? Af hverju er ekki hverjum og einum bónda frjálst að semja sjálfur um að selja sínar vörur? Hverskonar miðalda miðstýring er þetta eiginlega?

Magnús Helgi Björgvinsson, 16.7.2011 kl. 21:42

8 identicon

Magnús.. Þá má benda þér á að það er ekki verið að tala um 25% hækkun útúr búð. Það er verið að tala um hækkun á afurðaverði til bænda sem er annar hlutur. Afurðastöðvarnar, sem eru sumar í eigu bænda, eru að skila það miklum hagnaði að það er innistæða fyrir þessum hækkunum. Þarf ekki endilega að fara út í verðlagið. Það er reyndar frekar illa að þessum hækkunarmálum staðið hjá Landssamtökum Sauðfjárbænda. Það sem bændur eru að fara fram á er að raunverð sé að skila sér betur til þeirra.

Gylfi er greinilega ekki að hugsa um eða kynna sér þetta mál of mikið. En tökum annað inní málið. Frá hruni hefur lambakjöt hækkað minnst af öllum innlendum landbúnaðarvörum eða 7% minnir mig. Innfluttir ávextir og grænmeti hafa hækkað um amk 200%. Ekki er Gylfi að biðja fólk að sniðganga það. Þetta er eitthvað persónulegt. Allavega stórskrýtið.

Steingrímur Eyjólfsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 09:46

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tíminn til að sniðganga Gylfa Arnbjörnsson er löngu runninn upp. Hann  hefur þó sjaldan undirstrikað ástæðuna jafnopinberlega og í gær þar sem hann kýs að viðhafa orð um bændur sem maður hefði vænst, stöðu hans vegna,  að hann létti falla um fjármagnseigendur og stjórnvöld.

Nú þykir mér hæpið að Gylfi viti ekki nákvæmlega út frá hvaða kostnaðarliðum verð á landbúnaðarvöru er samansett. Ef Gylfa þykir ástæða til að tjá sig frekar um verð á landbúnaðarvöru en vaxtakjör almennings, verðtryggingu og eldsneytisverð, svo nokkur dæmi séu tekin, þá ætti hann að leggja það til að fækka milliliðunum sem taka hver sinn toll og hækka verðið á innlendri framleiðslu. Þar með talið lambakjöti.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.7.2011 kl. 17:35

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einhvern tímann í framtíðinni mun það gerast að landbúnaður alls staðar í heiminum þarf að standa á eigin fótum.  Sá tími er ekki kominn og þess vegna verður að gæta jafnræðis á milli niðurgreiðslna eins og hægt er.  Við megum ekki gleyma því að landbúnaðarafurðir eru greiddar griðarlega mikið niður í öllum þeim löndum sem okkur gæti dottið í hug að versla við.  Ef það er ekki gert með beinum greiðslum til bænda, þá er það gert með lækkun fóðurverðs, niðurgreiðslu á rafmagni, niðurgreiðslu á framleiðsluna sjálf, niðurgreiðslu á útflutning og svona mætti lengi halda áfram að telja.  Ástæður fyrir þessu eru í megindráttur tvær: 

1) Ef engar væru niðurgreiðslurnar, þá hefðu neytendur ekki efni á að kaupa vöruna á núverandi launum.  Lausnin á því væri að hækka laun, en á móti ættu skattar að lækka.

2) Landbúnaðarframleiðsla í einu landi væri ekki samkeppnishæf við landbúnaðarframleiðslu frá öðru landi.  Leiðin er því að niðurgreiða framleiðsluna til að viðhalda starfseminni og það sem mestu máli skiptir matvælaframleiðslunni.

Þetta tvennt hefur leitt til þess umhverfis sem við búum við á Vesturlöndum.  Grimmastir allra í niðurgreiðslum eru líklegast Bandaríkin og Frakkland.  Í þessum tveimur löndum vex ekki strá á ökrum bænda sem ekki er styrkt af opinberum sjóðum.

Að halda að við búum við eitthvað annað kerfi en löndin í kringum okkur er barnaskapur og forseti ASÍ ætti að vita það.  Hann ætti líka að vita, að verðtryggingin er mun meiri bölvaldur fyrir launafólk í landinu en verð búvara.  Verðtryggingin eltir nefnilega allar verðlagsbreytingar og tryggir áhyggjulausa ávöxtun fyrir fjárfesta sem eiga að hafa fyrirhlutunum en ekki áhyggjulaus ævikvöld fyrir þá sem eiga slíkt skilið.

Marinó G. Njálsson, 18.7.2011 kl. 17:29

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Marínó góður,

Minnistu þess að hafa heyrt orðið sparandi í gamla daga? það voru þeir sem eyffu ekki öllu fé sínu strax heldur lögðu fyrir. Þetta fólk var árum saman rænt af verðbólgunni eog er víst enn.

Þú segir:

"Að halda að við búum við eitthvað annað kerfi en löndin í kringum okkur er barnaskapur og forseti ASÍ ætti að vita það. Hann ætti líka að vita, að verðtryggingin er mun meiri bölvaldur fyrir launafólk í landinu en verð búvara. Verðtryggingin eltir nefnilega allar verðlagsbreytingar og tryggir áhyggjulausa ávöxtun fyrir fjárfesta sem eiga að hafa fyrirhlutunum en ekki áhyggjulaus ævikvöld fyrir þá sem eiga slíkt skilið."

Af hverju hugsar þú bara um verðtryggingu útfrá sjónarhóli skuldarans? Viltu að sparnaður sé bara í steypu eins og hann var svo lengi? Eða viltu aldrei borga neitt til baka sem þú færð lánað?

Mér finnst að okkur vanti kannski sanngjarnari vísitölu. En verðtrygging er réttlát, hún er nauðsynleg, hún er góð.Vextir væru lágir ef ekki væru óvinirnir í bönkunum. Þar er ófreskjan sem drekkur blóðið og vill dvona 7 % verðtryggða vexti þegar 2 % væru sanngjarnt.

Halldór Jónsson, 18.7.2011 kl. 21:42

12 Smámynd: Halldór Jónsson

afsakaðu innsláttarvillurnar

Halldór Jónsson, 18.7.2011 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband