Hvenær?

Nú er komið að því að móta samningsskilyrði Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fögur fyrirheit voru gefin um að allir gætu komið að þessari vinnu og mikilvægt væri að víðtæk sátt næðist um að standa fast á hagsmunum Íslands í stærstu málaflokkunum. Það vekur því furðu að þeir sem veita ESB umsókninni forystu skuli með öllum tiltækum ráðum halda þessu í þröngum hópi og meina jafnvel einstökum ráðherrum, Alþingismönnum og hagsmunasamtökum sem þekkingu hafa málum að taka þátt í mótun samningsskilyrðanna.

 

Hvenær á að funda?

Þann 5. júlí óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir fundi í Utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða yfirlýsingar utanríkisráðherra þess efnis að Íslendingar þyrftu engar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB. Auk þess var óskað eftir því að ræða þann mikla efnahagsvanda sem ESB stendur frammi fyrir, aukna miðstýringu sem af honum hlýst og áhrif þess á aðildarviðræður Íslands að ESB.

 Þann 12. júlí óskaði Sigurður Ingi Jóhannsson eftir fundi í Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að ræða ýmislegt er varðar ESB umsóknina. Þar vildi hann ræða yfirlýsingar utanríkisráðuneytis um að ekki þurfi að bera samningsskilyrðin undir ríkisstjórn og Alþingi, ástæður þess að samningahópar um sjávarútveg og landbúnað funda lítið sem ekkert og ástæður þess að þingnefndum, hagsmunasamtökum o.fl. er meinað að taka þátt í mótun samningsskilyrða. Jafnframt var óskað eftir því að fundinum yrði sjónvarpað enda væri slíkt í samræmi við þau loforð sem gefin voru um opna og gegnsæja umræðu.

Það er auðvitað hægt að bera því við að vegna sumarleyfa sé ekki hægt að funda í nefndum. Það er þó sérstaklega tekið fram í þingsköpum að ríkisstjórn skuli hafa samráð við utanríkismálanefnd jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Þrátt fyrir þessar umboðslausu yfirlýsingar utanríkisráðherra þá hafnar Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, því að halda fund í nefndinni og ber við sumarleyfum. Það er hinsvegar ekki að sjá að sumarleyfin aftri á öðrum sviðum eins og ferðalög og yfirlýsingar sumarsins bera með sér.

 

Fleiri spyrja um samráðið

 Evrópuvefurinn er nýr vefur þar sem almenningur getur sent inn spurningar um ESB og starfsmenn leitast við að svara þeim á hlutlausan hátt. Fyrirspurn var beint til vefsins nýverið um það hverjir það væru sem ákvarði samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í svari til fyrirspyrjanda segir að ríkisstjórn beri að hafa samráð líkt og fram kemur í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Ákvaðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum skulu samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli en stjórnskipuleg ábyrgð á viðræðunum liggur hjá utanríkisráðherra. Í svarinu var einnig fjallað um hlutverk Alþingis og að tryggja verði að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þáttakandi og eftirlitsaðili, enda sé það á endanum hlutverk Alþingis að fjalla um aðildarsamninginn. Evrópuvefurinn furðar sig á því að slíkur samráðshópur hafi enn ekki verið skipaður.

Hvað tefur þá félaga?

Reynslan úr Icesave málinu sýndi okkur að þeir sem ráða för í utanríkismálum þjóðarinnar eru tilbúnir að fórna öllu fyrir ESB og jafnvel þó sambandið logi stafna á milli. Það er áhyggjuefni að markvisst skuli vera unnið að því að halda sem flestum frá mótun samningsskilyrða Íslands. Stundum finnst manni eins og það sé gleymt að stærsta krafan eftir hrun var breytt og bætt vinnubrögð. Hvenær ætla þeir félagar utanríkisráðherra hæstvirtur og formaður utanríkismálanefndar að tileinka sér þessi nýju vinnubrögð? Hyggjast þeir hefja samráð um mótun samningsskilyrða líkt og kveðið er á um? Eru þeir kannski í skjóli leyndarinnar að reyna það sama og gert var í Icesave, að gefa allt eftir áður en lagt er af stað?

Ásmundur Einar Daðason, Alþingismaður Framsóknarflokksins

Grein sem birtist í Morgunblaðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það sem ég skil ekki Ásmundur er hversvegna má þetta fólk brjóta lög s.s. stjórnarskránna og hegningalögin í Kafla X um landráð. Engin af ykkur á þingi gerði neitt í þessu svo spurning vaknar þekktu þið ekki lög landsins.?   ''Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB'' http://www.althingi.is/altext/137/s/0283.html Þetta þýddi ekki að að þeir hefðu fengið undanþágu frá lögum landsins svo spurningin er því létuð þið allt kjurt liggja á Alþingi þótt þið vissuð að þetta var ekki samkvæmt lögum og hæsta gráða Landráð sem hægt er að fremja.. Umsóknin sjálf var stjórnarerindi og þurfti undirskrift forseta ásamt Ráðherra tii að verða gild. Málið var að forseti mátti ekki skrifa undir vegna þess að stjórnarskráin meiðaði honum það.

Valdimar Samúelsson, 5.8.2011 kl. 23:16

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þar sem það er búið að loka á athugasemdir vegna Gylfa Arnbjörnsson Þá vil ég taka það fram að hann laug um stuðning  vegna ESB innan sinna félagasamtaka. Ég skrifaði öllum aðildarfélögum ASI og engin sagðist styðja ESB ferilinn og það yrði fólkið sjálft að ákveða. Þegar menn í svona aðstöðu ljúga þá á að gera einhvað í því. Ég á öll svarbréfin frá þessum aðildarfélögum ASI.

Valdimar Samúelsson, 5.8.2011 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband