Færsluflokkur: Bloggar

Ný vefsíða - www.asmundur.is

Hef opnað eigin vefsíðu á slóðinni: www.asmundur.is

Þakka öllum sem hafa lesið bloggið mitt á undanförnum árum og bíð ykkur velkomin á: www.asmundur.is

 

Ásmundur Einar Daðason


Lokun öldrunardeildar á Akranesi

Þrátt fyrir glímuna við ríkisfjármálin lengir marga eftir forgangsröðun í þágu velferðar líkt og lofað var í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Á sama tíma og fjárveitingar til margra málaflokka aukast þá eru minnkandi framlög til heilbrigðisþjónustu mikið áhyggjuefni. Síðastliðinn fimmtudag stóð Sjúkraliðafélags Íslands fyrir fundi á Akranesi vegna fyrirhugaðrar lokunar E-deildar sjúkrahússins á Akranesi. Þegar þessar tillögur voru fyrst kynntar þá óskaði ég eftir fundi með forstöðumönnum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) og í framhaldinu átti ég góðan fund með starfsfólki og trúnaðarmanni starfsfólks á E-deildinni. Að loknum þessum fundum setti ég mig í samband við heilsugæslulækna á starfssvæði HVE, einstaklinga og aðstandendur margra sem hafa notið góðrar þjónustu á E-deildinni.

 

Mikilvægi deildarinnar og framtíðarsýn HVE

Þeir eru ófáir sem hafa nýtt sér þjónustu E-deildar sjúkrahússins á Akranesi en á síðasta ári þjónustaði deildin 105 einstaklinga. Þarna er um að ræða aldraða einstaklinga víðsvegar af Vesturlandi sem komið hafa í endurhæfingu, hvíldarinnlagnir og skamm- og langtímainnlagnir. Endurhæfing og hvíldarinnlagnir gera einstaklingum mögulegt að búa lengur heima með lægri tilkostnaði fyrir samfélagið. Skamm- og langtímainnlagnir eru yfirleitt vegna þess að einstaklingar hafa ekki fengið vistunarmat eða bíða þess að hjúkrunarrými losni.

 

Í framtíðarsýn HVE fyrir árin 2011-2013, sem gefin var út 1. júní 2011, kemur fram að eitt af hlutverkum stofnunarinnar sé að sinna öldrunarþjónustu þar sem slík þjónusta sé ekki veitt af sveitarfélögum eða öðrum. Undir þessa framtíðarsýn ritar núverandi velferðarráðherra og því spyrja margir sig hvað hafi breyst á 6 mánuðum. Þeir sem til þekkja segja ógerlegt að veita þessa þjónustu á öðrum deildum og þjónustuskerðing og aukinn kostnaður verði óumflýjanlegur.

 Er ekki ástæða til að endurskoða ákvörðunina og verja öldrunarþjónustu á Akranesi?

Hvernig má það vera að hægt sé að loka heilli deild og segja upp 30 manns án þess að það bitni á þjónustu? Ef málum er þannig háttað, af hverju var ekki löngu búið að loka þessari deild? Af hverju hafa læknar á starfssvæði stofnunarinnar miklar áhyggjur af stöðu mála? Af hverju segir starfsfólk sjúkrahússins ómögulegt að bæta þessum verkefnum á aðrar deildir? Hvað verður um einstaklinga sem bíða eftir því að komast að? Í framhaldi af fundinum á Akranesi þá hef ég óskað eftir sérstakri utandagskrárumræðu um þetta mál á Alþingi enda mikilvægt, ætli menn ekki að draga þessar tillögur til baka, að áhrifin liggi fyrir áður en lengra er haldið.

 

Flestum sem hafa kynnt sér þetta mál er ljóst að þrátt fyrir fögur orð þá mun ekkert koma í stað öldrunardeildar sjúkrahússins á Akranesi. Áhrifanna mun gæta á öllu Vesturlandi og til lengri tíma mun þetta líklega hafa í för með sér aukin kostnað fyrir ríkissjóð. Ef einhvern tímann er mikilvægt að snúa bökum saman þá er það þegar vegið er að heilbrigðisþjónustu. Einn þingmaður eins og ég stöðvar ekki þessar breytingar og því verða allir að standa saman og sýna velferðarráðherra stuðning í því að endurskoða ákvörðun um lokun öldrunardeildar á Akranesi.

 

Grein þessi var áður birt í Skessuhorni og í Fréttablaðinu.


ESB í upphafi árs

 

Nú í upphafi ársins eru 18 mánuðir liðnir síðan naumur meirihluti Alþingis samþykkti að sækja um aðild að ESB. Í ljósi mikillar umræðu undanfarið um vanda ESB, stöðu ríkisstjórnarinnar o.fl. þá er ágætt að fara aðeins yfir í hvaða stöðu ESB umsóknin er.

Óljós framtíð evrunnar!
Öllum er ljós sá mikli vandi sem steðjar að evrusvæðinu og þeim fer fjölgandi sem telja að evran muni ekki lifa af í óbreyttri mynd. Mönnum greinir á hvort mögulegt sé að bjarga henni en flestir telja einu fræðilegu lausnina að flytja aukin völd frá aðildarríkjum til Brussel. Dæmi um það væri að taka upp hærri ESB skatta sem renna bent til Brussel og úthluta fjármunum síðan með ESB fjárlögum. Samhliða verði að stíga stærri skref í átt til Sambandsríkis Evrópu heldur en gert hefur verið.

Þessar hugmyndir hafa mætt mikilli andstöðu víða í Evrópu enda er hugmyndin um sambandsríki Evrópu langt utan þess sem upphaflega var stefnt að. Í mörgum löndum hefur fólk komið saman til að mótmæla og kröfurnar eru margskonar en tengjast með einum eða öðrum hætti vanda ESB og evrunnar. Bretar hafa alfarið hafnað því að taka þátt í frekari breytingum sem fela í sér fullveldisafsal. Í Danmörku verður sú krafa háværari að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar sem skerði fullveldi. Þjóðverjar og Frakkar eru ekki tilbúnir til að láta meiri fjármuni til bjargar ríkjum í vanda. Af þeim sökum er Grikkjum fyrirskipað að ráðast í stórtæka einkavæðingu á opinberum eignum, en þar má t.d. nefna hafnar- og samgöngumannvirki, orkufyrirtæki, alþjóðaflugvöllinn í Aþenu o.fl. Þetta og meira til hefur valdið aukinni pólitískri spennu og andstaða við ESB aðild og evru hefur vaxið. Margir spyrja sig eðlilega hvort ESB sé að liðast í sundur og hvort Þjóðverjar, Grikkir, Írar o.fl. þjóðir séu að undirbúa upptöku síns gamla gjaldmiðils.

Pólitísk staða og eftirgjöf Vinstri grænna
Mikill meirihluti Íslendinga gerir sér grein fyrir því að hagsmunum þjóðarinnar er best borgið utan ESB. Þeir sem hlynntir eru ESB aðild sjá einnig í vaxandi mæli skynsemi þess að hætta ESB aðildarferlinu og það birtist meðal annars í því hversu fáir eru tilbúnir til að tala fyrir ágæti ESB aðildar. Baráttumálið virðist vera það eitt að klára samninga og sjá hvað er í boði en allir þeir erlendu aðildar sem hingað koma segja að enginn geti sótt um aðild að ESB til að sjá hvað sé í boði. Ríkisstjórnin verði að tala einni röddu í málinu.

Samfylkingin einn stjórnmálaflokka berst fyrir ESB aðild og forysta flokksins er ekki tilbúin að leggja umsóknina til hliðar þrátt fyrir að skynsemin segi okkur að nú séu brýnni mál sem þarfnist úrlausnar. Vinstri grænir halda síðan lífi í umsókninni með því að fallast á allar kröfur sem samstarfsflokkurinn setur þeim. Eftirlátssemin þar á bæ er ótrúlega mikil, sérstaklega í ljósi þess að fyrir síðustu Alþingiskostningar var flokkurinn mjög eindreginn í andstöðu sinni við ESB aðild. Eftir kosningar var strax gefið eftir og ekkert athugavert þótti að leggja fram þingsályktun á Alþingi um málið enda yrðu að sjálfsögðu allir frjálsir. Sú atkvæðagreiðsla var auðvitað leikþáttur frá upphafi til enda og forysta flokksins hafði greinlega lofað því að málið næði fram að ganga. Í framhaldinu var þjóðinni sagt að engin aðlögun myndi fara fram og ESB fengi ekki að leggja fram fjármuni til aðlögunar og áróðurs en svo virðist vera sem það hafi heldur ekki verið heilagt.

Það er að koma betur í ljós að um aðlögunarferli er að ræða og breytingar á regluverki verða að fara fram á samningstímanum. Nýlegt dæmi eru tillögur Umhverfisráðherra í þá átt að alfriða 5 svartfuglategundir sem friðaðar eru í ESB. Það hefur einnig komið skýrt fram að Samfylkingin og ESB hafa viljað losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn vegna þess að hann hefur staðið fast á því að ekki fari fram aðlögun og að styrkir til aðlögunar verði afþakkaðir. Með ráðherrakapli nú um áramótin hafa Vinstri grænir fallist á þessar kröfur og enn á ný gefið eftir gagnvart Samfylkingunni.

Augu manna beinast nú að formanni Vinstri grænna sem sjálfur tók við ráðherrastólnum af Jóni Bjarnasyni en hann sagði aðspurður þegar hann tók við embætti að ekkert myndi breytast varðandi ESB málið. Mun hann hafna styrkjum til aðlögunar líkt og forveri sinn? Mun hann viðurkenna varnarlínur BÍ og gera þær að samningsafstöðu Íslands? Mun hann standa á þeirri kröfu að Ísland hafi yfirráð yfir deilistofnum í sjávarútvegi? Það er margt sem bendir til þess að Vinstri grænir ætli enn á ný að gefa eftir gagnvart samstarfsflokknum. Það sem styður þá kenningu er að í aðdraganda ráðherrakapalsins þá leituðu formenn stjórnarflokkanna til Hreyfingarinnar og Guðmundar Steingrímssonar um stuðning við ESB umsóknina. Afhverju þurfti formaður Vinstri grænna að leita til þeirra ef ekkert á að breytast við brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn?

eftir Ásmund Einar Daðason
Alþingismaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar

Grein þessi var birt í Morgunblaðinu í síðustu viku


mbl.is Finnar styðji ekki ESB-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið, friðun svartfugls og ESB

Á leiðarasíðu fréttablaðsins er undir liðnum “frá degi til dags” fjallað um menn og málefni líðandi stundar á gamansaman hátt. Umfjöllun blaðsins sl. föstudag var engin undantekning en þar var fjallað um fyrirhugaða friðun 5 svartfuglategunda og stefnu ESB í þeim málaflokki.

 

RANGT hjá Fréttablaðinu – Svartfugl er friðaður í ESB!

Það var þó eitt vandamál við umfjöllun blaðsins en þ.e. að blaðamaður fór ekki rétt með staðreyndir þegar fjallað var um stefnu ESB. Þegar þessi pistill er ritaður þá hefur blaðið ennþá ekki séð ástæðu til að leiðrétta þessar rangfærslur.

  

Í umræddum pistli Fréttablaðsins sagði m.a.: Röksemdafærsla Ásmundar Einars byggir á því að þessar fimm tegundir séu alfriðaðar innan ESB og sambandinu því í mun að svo verði einnig hér. Á því er hins vegar sá hængur að allar fimm tegundirnar falla undir viðauka II-B í fuglatilskipun ESB. Í honum eru tegundir á hverjum aðildarríki geta leyft veiðar á sínu umráðasvæði. Aðild að ESB breytir því engu varðandi blessaða fuglana."

 

Staðreyndirnar sem Fréttablaðið heldur þarna fram eru rangar.  Engin þeirra fuglategunda sem til stendur að friða eru taldar upp í viðauka II-B (http://evropuvefur.is/svar.php?id=61415) og veiðar á þessum fuglum eru því ekki heimilaðar innan ESB. Sú yrði, að óbreyttu, einnig raunin á Íslandi. Í ljósi þess hversu vel blaðið hefur gert málinu skil þá átti ég von á því að blaðamenn væru betur upplýstir um þetta mál en raun ber vitni.


Áramótaávarp forsetans - Var þetta nei eða já?

Það voru nokkur atriði sem vöktu athygli í áramótaávarpi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

1. Efnahagsvandi ESB og breytt heimsmynd.  Hann fór yfir þá efnahagslægð sem er í ESB og það hvernig heimsmyndin væri að breytast með auknum styrk þjóða á borð við Kína og Indland. Ólafur hefur talað fyrir því að þjóðin byggði upp aukin samskipti við þessi ríki. Það væri óskandi að sambærilega víðsýni í utanríkismálum væri að finna hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar.

2. Mikilvægi norðurslóða og sóknarfæri Íslendinga. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær sigingar um norðurleiðina hefjast en þá er lega Íslands mjög mikilvæg.  Auk þess hafa erlendar skýrslur fjallað um að framtíðarorkuforði heimsins sé á norðurslóðum. Það hefur ítrekað komið fram að Ólafur gerir sér vel grein fyrir þessum breytingum og þeim sóknarfærum sem þetta mun hafa í för með sér.

3. Icesave - lýðræðislegur sigur þjóðarinnar. Icesave málið bar á góma en þar á Ólafur heiður skilið fyrir að gæta lýðræðislegra hagsmuna almennings. Þegar Ólafur vísaði Icesave til þjóðarinnar þá voru margir sem sögðu að hann myndi ekki gera það vegna gamalla pólitískra tengsla við ríkisstjórnarflokkana. Í þessu máli sýndi Ólafur þó að hann hefur ekki verið handbendi ákveðinna stjórnmálaflokka.

4. Föst skot á ríkisstjórnina - forgangsröðun í ríkisfjármálum. Forsetinn skaut föstum skotum á ríkisstjórnina þegar hann fór yfir mikilvægi þess að gæta aðhalds og í því sambandi rakti hann hvernig skrifstofa forseta Íslands væri með sama starfsmannafjölda og verið hafi fyrir 20 árum. Á sama tíma hefðu ríkisstofnanir og ráðuneyti þanist út meðan skorið væri niður í velferðarkerfinu.

5. Gefur ekki kost á sér aftur - Hvert stefnir hann? Það sem hinsvegar stendur uppúr er óljós tilkynning forsetans þess efnis að hann muni ekki gefa kost á sér á nýjan leik. Ólafur Ragnar nýtur stuðnings í embætti forseta Íslands og ég er þess fullviss að hann hefði náð endurkjöri hefði hann ákveðið að gefa kost á sér áfram. Í ljósi þess hversu óljós hann var í máli sínu þá vaknar eðlilega sú spurning hvort hann sé að kalla eftir áskorunum?

Í máli sínu sagði hann síðan að þetta væri ekki endirinn heldur upphafið og að forsetaembættið hindraði hann á margan hátt. Ef Ólafur Ragnar ætlar að hætta hvert stefnir hann þegar hann er orðinn fyrrverandi forseti Íslands?

Eitt er víst, þar til þetta skýrist þá mun hann verða mikið í umræðunni...


mbl.is Býður sig ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýliðun í landbúnaði - skref í rétta átt

Skilningur stjórnvalda og almennings á mikilvægi fæðuöryggis hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Grundvallaratriði í fæðuöryggi til framtíðar er að skapa umgjörð sem gerir ungu fólki í auknu mæli mögulegt að stunda búskap.

Ein jákvæð frétt í þessa átt kom fram í fjölmiðlum í gær en týndist í fjaðrafoki ríkisstjórnarinnar. Hún var þess efnis að samkomulag hafi náðst milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu (http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/nr/10797). Fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið mjög skilningsríkur þegar kemur að þessum málum. Samkomulagið felur það í sér að ákveðinni upphæð búvörusamnings verður varið til nýliðunar og reglur verða mótaðar í janúarmánuði 2012 um úthlutun.   

 

Til hamingju ungir bændur!

Ég fullyrði að við værum ekki að sjá það skref sem nú hefur verið stigið í átt til nýliðunar ef ekki væri fyrir baráttu Samtaka ungra bænda. Í flestum nágrannalöndum hafa um árabil verið starfandi samtök ungra bænda og skipa þau oft á tíðum veigamikinn sess í umræðu um landbúnað og matvælaframleiðslu. Á Íslandi voru slík samtök stofnuð árið 2009 (www.ungurbondi.is). Mér var sá heiður aðhljótandi að vera fundarstjóri á stofnfundi samtakanna og ég fullyrði að frá stofnun þá hafa samtökin sannað mikilvægi sitt.

Þetta er langhlaup og víða eru múrar. Því er mikilvægt um leið og þessum áfanga er fagnað að hefja undirbúning stærri skrefa til að efla nýliðun í landbúnaði. Þar má t.d. nefna lánakjör til nýliða, breytingar á jarðalögum o.fl. Alla jafna er litið svo á að sá sem segi ekkert hafi enga skoðun og því er mikilvægt að ungt fólk sé áberandi í umræðu um framtíð íslensks landbúnaðar.

Það er vonandi að Samtök ungra bænda hafi áfram forystu í umræðu um framtíð íslensks landbúnaðar. Um leið er mikilvægt að þeir sem eldri eru hlusti á unga fólkið sem erfir landið Læt þetta fylgja með til gamans: (http://www.youtube.com/watch?v=ZopTHfUTv7A)

Með áramótakveðju og óskum um að nýtt ár verði ár unga fólksins.

Gleðilegt nýtt ár ;-)

 

 


Hvað vakir fyrir Hreyfingunni?

Afhverju að framlengja líf ríkisstjónar sem hefur afrekað eftirfarandi: 

  • Skuldavandi heimilanna er enn óleystur þremur árum eftir bankahrun og ríkisstjórnin hefur engar lausnir.
  • Langtímaatvinnuleysi hefur fest sig í sessi og atvinnurekendur eru svartsýnir á stöðuna enda lítinn skilning að finna hjá ríkisstjórninni á mikilvægi atvinnuuppbyggingar.
  • Þúsundir Íslendinga hafa flúið land og unga fólkið heldur áfram að flytja til Noregs.
  • Ítrekað hafa verið svikin loforð um afnám verðtryggingar.
  • Helbrigðiskerfinu hefur verið rústað og forgangsröðun í ríkisfjármálum er ekki í þágu velferðar eins og lagt var upp með.
  • Ný og gegnsæ vinnubrögð komast ekki á dagskrá og átök innan ríkisstjórnarinnar eru daglegt brauð.

Allir vita að í forystu núverandi ríkisstjórnar eru gamlir hundar sem engar breytingar vilja og það er ótrúlegt að ætla að framlengja líf hennar.  

Hvað vakir fyrir Hreyfingunni ? Getur verið að þar séu menn fremur að hugsa um að framlengja eigið pólitískt líf um 18 mánuði?  Gangi Hreyfingin til liðs við ríkisstjórnina þá er hún að framlengja aðgerðarleysið sem þau hafa gagnrýnt.

Hugsuðurinn, ef hugsuð skyldi kalla, á bak við þetta er hrunráðherrann Össur Skarphéðinsson. Hann virðist vera búinn að koma þeim fjarstæðukenndu hugmyndum inn hjá Hreyfingunni að miklar breytingar verði á grunnstefnu ríkisstjórnarinnar ef þau gangi til liðs við hana.

Það blasir við öllum að fyrir Össuri og Samfylkingunni vakir það eitt að framlengja líf dauðrar ESB umsóknar. Enda er það eina lausn Samfylkingarinnar á öllum vanda og líklega það eina sem heldur þessari ósamstæðu hjörð saman.

Það sem þó er ótrúlegast við þetta allt er að formaður Vg skuli vera orðinn svo mikill hluti af Samfylkingunni að hann ætli að láta hana vaða yfir samráðherra sína með þessum hætti... Er hann kannski nýja formannsefnið sem Össur var að tala um?

Það er vonandi fyrir íslenska þjóð að Hreyfingin sjái að sér...


mbl.is Undirstrikar óvissu hjá stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna þess að við erum utan ESB!

Nú liggur fyrir að Íslendingar eru að fá um 25 milljarða króna vegna makrílveiða á síðasta ári. Það munar um minna á tímum niðurskurðar og skattahækkana. Auk þess er þetta skapar um 1000 ársstörf.

Ef við værum í ESB þá væru Íslendingar ekki að skapa þessar tekjur vegna þess að við myndum ekki hafa sjálfsákvörðunarvald eða samningsyfirráð yfir þessum fiskistofnum líkt og við höfum nú.

Það kann að vera að einhverjum ESB-sinnum finnist það í góðu lagi, líkt og þeim fannst í góðu lagi að greiða hundruði milljarða í vexti vegna Icesave. Þeir sömu eru hinsvegar að segja að þeir séu tilbúnir til að láta þessa fjármuni og störf framhjá okkur fara. Hvernig ætli staðan væri í ríkisfjármálum þjóðarinnar ef þessir 25 milljarðar hefðu ekki komið inn á árinu 2011?

Það væri ekki úr vegi að fjölmiðlar spyrðu Samfylkinguna um málið.... ESB aðild væri í þessu eina afmarkaða tilfelli að kosta þjóðina 25 milljarða og 1.000 störf.


mbl.is 25 milljarðar vegna makríls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að stinga hausnum í sandinn!

Jafnaðarmaðurinn Gordon Brown ritar athyglisverða grein í blaðið Independent í gær. Yfirskrift greinarinnar  „Evrópa er enn að stinga höfðinu í sandinn“ segir meira en mörg orð um þá hörðu gagnrýni sem hún felur í sér.  

Evran hamlar hagvexti og eykur atvinnuleysi

Brown bendir á þá staðreynd að vegna evrunnar þá hafi Evrópa mátt þola mikið atvinnuleysi og að evran sé mjög mikil bremsa á hagvöxt. Hann segir einnig að leiðtogar í Evrópu hafi ekki verið vandanum vaxnir við efnahagsstjórn og séu í dag búnir að missa af lestinni. Ekkert geti komið í veg fyrir að grundvallarbreytingar þurfi að gera bæði á ESB og evrusvæðinu. Það sem Brown bendir á í grein sinni eru auðvitað ekki ný sannandi og það liggur fyrir að eina lausn ESB út úr þessum vanda er að stórauka miðstýringu og minnka vald aðildarríkja.  Það er hinsvegar mjög athyglisvert að stjórnmálamaður sem hefur í fjölda ára verið í forystuhlutverki í evrópskum stjórnmálum skuli tala með þessum hætti og sýnir þann mikla vanda sem sambandsríki ESB glímir við.  

„Global Europe plan“

Það er annað sem Brown bendir á sem er einkar athyglisvert sé það borið saman við utanríkisstefnu Íslands. Hann fjallar um mikilvægi þess að auka viðskipti við þau átta hagkerfi sem vaxa hraðast í heiminu (Indland, Kína, Brasilía, Rússland, Indónesía, Tyrkland, Kóreu og Mexíkó) en þetta kallar hann „global Europe plan“. Hann bendir á að í dag fari aðeins 7,5% af útflutningi til þessara ríkja á sama tíma og þau standi undir 70% af þeim hagvexti sem er í heiminum. Þetta er hárrétt hjá Brown og það væri óskandi að íslensk stjórnvöld myndu í auknu mæli stefna í þessa átt. Góð byrjun væri t.d. að gefa sér tíma til að funda með forsætisráðherra Kína.  

Hvað með Ísland?

Þegar staðan innan ESB er skoðuð þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvort yfirskrift greinar Gordons Brown geti átt við forystumenn ríkisstjórnar Íslands. Menn skyldu ætla að mikilvægasta verkefnið væri að ná hagvexti í gang og minnka atvinnuleysi. Lykillinn að því væri að auka útflutning og leita á þau svæði þar sem sóknarmöguleikarnir eru mestir. Maður skyldi einnig ætla að eftir hrun væru menn tilbúnir til að taka hausinn upp úr sandinum og horfast í augu við þær staðreyndir sem Brown o.fl. benda á.

En Efnahags og viðskiptaráðherra lætur þvert á móti hafa eftir sér að vandinn sé að við verðum að taka upp evru (hagvaxtarlamandi mynt sem eykur atvinnuleysi). Forsætisráðherra hefur ekki tíma til að funda með forsætisráðherra Kína enda þjónar það ekki stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum. Hversu lengi getur þetta gengið áfram? Það væri óskandi að Samfylkingin myndi hlusta á jafnaðarmenn í Bretlandi sem auðsjáanlega eru tilbúnir að horfast í augu við staðreyndir.


Hvenær?

Nú er komið að því að móta samningsskilyrði Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fögur fyrirheit voru gefin um að allir gætu komið að þessari vinnu og mikilvægt væri að víðtæk sátt næðist um að standa fast á hagsmunum Íslands í stærstu málaflokkunum. Það vekur því furðu að þeir sem veita ESB umsókninni forystu skuli með öllum tiltækum ráðum halda þessu í þröngum hópi og meina jafnvel einstökum ráðherrum, Alþingismönnum og hagsmunasamtökum sem þekkingu hafa málum að taka þátt í mótun samningsskilyrðanna.

 

Hvenær á að funda?

Þann 5. júlí óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eftir fundi í Utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða yfirlýsingar utanríkisráðherra þess efnis að Íslendingar þyrftu engar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB. Auk þess var óskað eftir því að ræða þann mikla efnahagsvanda sem ESB stendur frammi fyrir, aukna miðstýringu sem af honum hlýst og áhrif þess á aðildarviðræður Íslands að ESB.

 Þann 12. júlí óskaði Sigurður Ingi Jóhannsson eftir fundi í Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að ræða ýmislegt er varðar ESB umsóknina. Þar vildi hann ræða yfirlýsingar utanríkisráðuneytis um að ekki þurfi að bera samningsskilyrðin undir ríkisstjórn og Alþingi, ástæður þess að samningahópar um sjávarútveg og landbúnað funda lítið sem ekkert og ástæður þess að þingnefndum, hagsmunasamtökum o.fl. er meinað að taka þátt í mótun samningsskilyrða. Jafnframt var óskað eftir því að fundinum yrði sjónvarpað enda væri slíkt í samræmi við þau loforð sem gefin voru um opna og gegnsæja umræðu.

Það er auðvitað hægt að bera því við að vegna sumarleyfa sé ekki hægt að funda í nefndum. Það er þó sérstaklega tekið fram í þingsköpum að ríkisstjórn skuli hafa samráð við utanríkismálanefnd jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Þrátt fyrir þessar umboðslausu yfirlýsingar utanríkisráðherra þá hafnar Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, því að halda fund í nefndinni og ber við sumarleyfum. Það er hinsvegar ekki að sjá að sumarleyfin aftri á öðrum sviðum eins og ferðalög og yfirlýsingar sumarsins bera með sér.

 

Fleiri spyrja um samráðið

 Evrópuvefurinn er nýr vefur þar sem almenningur getur sent inn spurningar um ESB og starfsmenn leitast við að svara þeim á hlutlausan hátt. Fyrirspurn var beint til vefsins nýverið um það hverjir það væru sem ákvarði samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í svari til fyrirspyrjanda segir að ríkisstjórn beri að hafa samráð líkt og fram kemur í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Ákvaðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum skulu samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli en stjórnskipuleg ábyrgð á viðræðunum liggur hjá utanríkisráðherra. Í svarinu var einnig fjallað um hlutverk Alþingis og að tryggja verði að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þáttakandi og eftirlitsaðili, enda sé það á endanum hlutverk Alþingis að fjalla um aðildarsamninginn. Evrópuvefurinn furðar sig á því að slíkur samráðshópur hafi enn ekki verið skipaður.

Hvað tefur þá félaga?

Reynslan úr Icesave málinu sýndi okkur að þeir sem ráða för í utanríkismálum þjóðarinnar eru tilbúnir að fórna öllu fyrir ESB og jafnvel þó sambandið logi stafna á milli. Það er áhyggjuefni að markvisst skuli vera unnið að því að halda sem flestum frá mótun samningsskilyrða Íslands. Stundum finnst manni eins og það sé gleymt að stærsta krafan eftir hrun var breytt og bætt vinnubrögð. Hvenær ætla þeir félagar utanríkisráðherra hæstvirtur og formaður utanríkismálanefndar að tileinka sér þessi nýju vinnubrögð? Hyggjast þeir hefja samráð um mótun samningsskilyrða líkt og kveðið er á um? Eru þeir kannski í skjóli leyndarinnar að reyna það sama og gert var í Icesave, að gefa allt eftir áður en lagt er af stað?

Ásmundur Einar Daðason, Alþingismaður Framsóknarflokksins

Grein sem birtist í Morgunblaðinu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband