Óljós framtíð evrunnar!
Öllum er ljós sá mikli vandi sem steðjar að evrusvæðinu og þeim fer fjölgandi sem telja að evran muni ekki lifa af í óbreyttri mynd. Mönnum greinir á hvort mögulegt sé að bjarga henni en flestir telja einu fræðilegu lausnina að flytja aukin völd frá aðildarríkjum til Brussel. Dæmi um það væri að taka upp hærri ESB skatta sem renna bent til Brussel og úthluta fjármunum síðan með ESB fjárlögum. Samhliða verði að stíga stærri skref í átt til Sambandsríkis Evrópu heldur en gert hefur verið.
Þessar hugmyndir hafa mætt mikilli andstöðu víða í Evrópu enda er hugmyndin um sambandsríki Evrópu langt utan þess sem upphaflega var stefnt að. Í mörgum löndum hefur fólk komið saman til að mótmæla og kröfurnar eru margskonar en tengjast með einum eða öðrum hætti vanda ESB og evrunnar. Bretar hafa alfarið hafnað því að taka þátt í frekari breytingum sem fela í sér fullveldisafsal. Í Danmörku verður sú krafa háværari að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar sem skerði fullveldi. Þjóðverjar og Frakkar eru ekki tilbúnir til að láta meiri fjármuni til bjargar ríkjum í vanda. Af þeim sökum er Grikkjum fyrirskipað að ráðast í stórtæka einkavæðingu á opinberum eignum, en þar má t.d. nefna hafnar- og samgöngumannvirki, orkufyrirtæki, alþjóðaflugvöllinn í Aþenu o.fl. Þetta og meira til hefur valdið aukinni pólitískri spennu og andstaða við ESB aðild og evru hefur vaxið. Margir spyrja sig eðlilega hvort ESB sé að liðast í sundur og hvort Þjóðverjar, Grikkir, Írar o.fl. þjóðir séu að undirbúa upptöku síns gamla gjaldmiðils.
Pólitísk staða og eftirgjöf Vinstri grænna
Mikill meirihluti Íslendinga gerir sér grein fyrir því að hagsmunum þjóðarinnar er best borgið utan ESB. Þeir sem hlynntir eru ESB aðild sjá einnig í vaxandi mæli skynsemi þess að hætta ESB aðildarferlinu og það birtist meðal annars í því hversu fáir eru tilbúnir til að tala fyrir ágæti ESB aðildar. Baráttumálið virðist vera það eitt að klára samninga og sjá hvað er í boði en allir þeir erlendu aðildar sem hingað koma segja að enginn geti sótt um aðild að ESB til að sjá hvað sé í boði. Ríkisstjórnin verði að tala einni röddu í málinu.
Samfylkingin einn stjórnmálaflokka berst fyrir ESB aðild og forysta flokksins er ekki tilbúin að leggja umsóknina til hliðar þrátt fyrir að skynsemin segi okkur að nú séu brýnni mál sem þarfnist úrlausnar. Vinstri grænir halda síðan lífi í umsókninni með því að fallast á allar kröfur sem samstarfsflokkurinn setur þeim. Eftirlátssemin þar á bæ er ótrúlega mikil, sérstaklega í ljósi þess að fyrir síðustu Alþingiskostningar var flokkurinn mjög eindreginn í andstöðu sinni við ESB aðild. Eftir kosningar var strax gefið eftir og ekkert athugavert þótti að leggja fram þingsályktun á Alþingi um málið enda yrðu að sjálfsögðu allir frjálsir. Sú atkvæðagreiðsla var auðvitað leikþáttur frá upphafi til enda og forysta flokksins hafði greinlega lofað því að málið næði fram að ganga. Í framhaldinu var þjóðinni sagt að engin aðlögun myndi fara fram og ESB fengi ekki að leggja fram fjármuni til aðlögunar og áróðurs en svo virðist vera sem það hafi heldur ekki verið heilagt.
Það er að koma betur í ljós að um aðlögunarferli er að ræða og breytingar á regluverki verða að fara fram á samningstímanum. Nýlegt dæmi eru tillögur Umhverfisráðherra í þá átt að alfriða 5 svartfuglategundir sem friðaðar eru í ESB. Það hefur einnig komið skýrt fram að Samfylkingin og ESB hafa viljað losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn vegna þess að hann hefur staðið fast á því að ekki fari fram aðlögun og að styrkir til aðlögunar verði afþakkaðir. Með ráðherrakapli nú um áramótin hafa Vinstri grænir fallist á þessar kröfur og enn á ný gefið eftir gagnvart Samfylkingunni.
Augu manna beinast nú að formanni Vinstri grænna sem sjálfur tók við ráðherrastólnum af Jóni Bjarnasyni en hann sagði aðspurður þegar hann tók við embætti að ekkert myndi breytast varðandi ESB málið. Mun hann hafna styrkjum til aðlögunar líkt og forveri sinn? Mun hann viðurkenna varnarlínur BÍ og gera þær að samningsafstöðu Íslands? Mun hann standa á þeirri kröfu að Ísland hafi yfirráð yfir deilistofnum í sjávarútvegi? Það er margt sem bendir til þess að Vinstri grænir ætli enn á ný að gefa eftir gagnvart samstarfsflokknum. Það sem styður þá kenningu er að í aðdraganda ráðherrakapalsins þá leituðu formenn stjórnarflokkanna til Hreyfingarinnar og Guðmundar Steingrímssonar um stuðning við ESB umsóknina. Afhverju þurfti formaður Vinstri grænna að leita til þeirra ef ekkert á að breytast við brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn?
eftir Ásmund Einar Daðason
Alþingismaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar
Grein þessi var birt í Morgunblaðinu í síðustu viku